Drottinn skapaði mig í upphafi,
á undan öðrum verkum sínum, í árdaga.
Fyrir óralöngu var ég mynduð,
í upphafi, áður en jörðin varð til.
Ég fæddist áður en hafdjúpin urðu til,
þegar engar vatnslindir voru til.
Áður en fjöllunum var hleypt niður,
á undan hæðunum fæddist ég,
áður en hann skapaði lönd og akra
og fyrstu moldarköggla jarðar.
Þegar hann þandi út himininn var ég þar,
þegar hann steypti hvelfingunni yfir hafdjúpin,
þegar hann festi upp skýin af mætti sínum
og lét uppsprettur undirdjúpanna streyma fram,
þegar hann setti hafinu skorður
til þess að vötnin staðnæmdust þar sem hann bauð,
þegar hann ákvað grundvöll jarðarinnar,
þá var ég með í ráðum við hlið honum,
var yndi hans dag hvern
og lék mér fyrir augliti hans alla tíma,
ég lék mér í byggðum heimi hans
og fagnaði með mannanna börnum.
Hlýðið mér, synir, því að sælir eru þeir
sem halda sig á vegum mínum.
Hlustið á hvatningu mína,
svo að þér verðið vitrir, og hafnið henni ekki.
Sæll er sá maður sem hlýðir á mig,
kemur daglega að hliðum mínum og dvelst við dyr mínar.
Sá sem finnur mig finnur lífið
og öðlast velþóknun Drottins.
Sá sem missir mín vinnur sjálfum sér mein.
Þeir sem hata mig elska dauðann.