Heyr, spekin kallar.
Viskan hefur upp raust sína.
Uppi á hæðunum, við veginn
og við krossgöturnar stendur hún,
við hliðin út úr borginni, þar sem gengið er inn,
kallar hún hástöfum:
Til yðar tala ég, menn,
og rödd minni er beint til mannanna barna.
Þér óreyndu, lærið hyggindi,
og þér heimskingjar, lærið skynsemi.
Hlýðið á því að ég boða það sem mikilvægt er
og varir mínar tjá það sem rétt er.
Sannleikur kemur af munni mínum
og lygi er viðbjóður vörum mínum.
Réttvísi boða öll orð munns míns,
í þeim er hvorki fals né fláræði.
Öll eru þau auðskilin hinum skilningsríka
og augljós þeim sem hlotið hefur þekkingu.
Þiggið leiðsögn mína fremur en silfur
og fræðslu mína fremur en skíragull.
Viska er betri en perlur,
engir fjársjóðir jafnast á við hana.
Ég, spekin, dvelst hjá viskunni,
hjá mér býr dómgreind og þekking.
Að óttast Drottin er að hata hið illa,
hroka og dramb, meinfýsi og ósannsögli hata ég.
Ráð veiti ég og velgengni,
hjá mér er hyggnin og minn er mátturinn.
Vegna mín halda konungar völdum
og valdhafar úrskurða það sem rétt er.
Vegna mín stjórna menn og hljóta mannaforráð,
allir valdsmenn veraldar.
Ég elska þá sem mig elska
og þeir finna mig sem leita mín.
Auður og sæmd eru hjá mér,
varanlegir sjóðir og velgengni.
Ávextir mínir eru betri en gull og gimsteinar
og afrakstur minn betri en hreint silfur.
Ég geng á götu réttlætisins
og stigum réttsýninnar.
Ég færi þeim sanna auðlegð sem elska mig
og fylli sjóði þeirra.