Þetta hef ég skrifað ykkur sem trúið á nafn Guðs sonar til þess að þið vitið að þið eigið eilíft líf. Og þetta er traustið sem við berum til hans: Ef við biðjum um eitthvað eftir hans vilja, þá heyrir hann okkur. Og ef við vitum að hann bænheyrir okkur um hvað sem við biðjum, þá vitum við að við höfum þegar öðlast það sem við báðum hann um.
Ef einhver sér bróður sinn eða systur drýgja synd, sem leiðir ekki til dauða, þá skal hann biðja Guð og hann mun gefa líf þeim sem syndgar ekki til dauða. Til er synd sem leiðir til dauða. Fyrir henni segi ég ekki að hann skuli biðja. Allt ranglæti er synd en til er synd sem ekki leiðir til dauða.
Við vitum að börn Guðs syndga ekki, hann sem er sonur Guðs varðveitir þau og hinn vondi snertir þau ekki.
Við vitum að við erum Guðs eign og allur heimurinn er á valdi hins vonda. Við vitum að sonur Guðs er kominn og hefur gefið okkur skilning til þess að við þekkjum sannan Guð. Við lifum í hinum sanna Guði, í syni hans Jesú Kristi. Hann er hinn sanni Guð og eilífa lífið.
Börnin mín, gætið ykkar á falsguðunum.