Til söngstjórans. Sálmur Davíðs, þegar Natan spámaður kom til hans eftir að Davíð hafði gengið inn til Batsebu.

Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar,
afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.
Þvo mig hreinan af misgjörð minni,
hreinsa mig af synd minni.
Ég þekki sjálfur afbrot mín
og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.
Gegn þér einum hef ég syndgað
og gert það sem illt er í augum þínum.
Því ert þú réttlátur er þú talar,
hreinn er þú dæmir.
Sjá, sekur er ég fæddur,
syndugur er móðir mín ól mig.
Þú hefur þóknun á hreinskilni hið innra
og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku.