[G]etið með gleði þakkað föðurnum sem hefur gert ykkur fært að fá arfleifð heilagra í ljósinu. Hann hefur frelsað okkur frá valdi myrkursins og flutt okkur yfir í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum við endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar.

Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs,
frumburður allrar sköpunar.
Enda var allt skapað í honum
í himnunum og á jörðinni,
hið sýnilega og hið ósýnilega,
hásæti og herradómar, tignir og völd.
Allt er skapað fyrir hann og til hans.
Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.
Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar,
hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu.
Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
og láta hann koma öllu í sátt við sig,
öllu bæði á jörðu og himnum,
með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.

Ykkur, sem voruð áður fráhverf Guði og óvinveitt í huga og vondum verkum, hefur hann nú sætt við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann lætur ykkur koma fram fyrir sig heilög og lýtalaus, óaðfinnanleg, ef þið standið stöðug í trúnni, á föstum grunni og hvikið ekki frá von þess fagnaðarerindis sem þið hafið heyrt og boðað hefur verið öllu sem skapað er í heiminum. Ég, Páll, er orðinn þjónn þess.