Þá sögðu nokkrir Jerúsalembúar: „Er þetta ekki sá sem þeir sitja um að lífláta? Og nú er hann að tala á almannafæri og þeir segja ekkert við hann. Skyldu nú höfðingjarnir hafa komist að raun um að hann sé Kristur? Nei, við vitum hvaðan þessi maður er. Þegar Kristur kemur veit enginn hvaðan hann er.“
Jesús var að kenna í helgidóminum og nú kallaði hann: „Bæði þekkið þið mig og vitið hvaðan ég er. Þó er ég ekki kominn á eigin vegum. En sá er sannur sem sendi mig og hann þekkið þið ekki. Ég þekki hann því ég er frá honum og hann sendi mig.“ Nú ætluðu þeir að grípa hann en enginn lagði hendur á hann því stund hans var ekki enn komin. En af alþýðu manna tóku margir að trúa á hann og sögðu: „Mun Kristur gera fleiri tákn þegar hann kemur en þessi maður hefur gert?“
Farísear heyrðu að fólk var að skrafa þetta um hann og æðstu prestar og farísear sendu þjóna að taka hann höndum. Þá sagði Jesús: „Enn verð ég hjá ykkur skamma stund og þá fer ég aftur til þess sem sendi mig. Þið munuð leita mín og eigi finna. Þið getið ekki komist þangað sem ég er.“
Þá sögðu menn sín á milli: „Hvert skyldi hann ætla að fara svo að við finnum hann ekki? Hann ætlar þó ekki að fara til Gyðinga sem dreifðir eru meðal Grikkja og kenna Grikkjum? Hvað var hann að segja: Þið munuð leita mín og eigi finna og þið getið ekki komist þangað sem ég er?“