Segið mér, þið sem viljið vera undir lögmáli, heyrið þið ekki hvað lögmálið segir? Ritað er að Abraham átti tvo sonu, annan við ambáttinni en hinn við frjálsu konunni. Sonurinn við ambáttinni var fæddur á náttúrulegan hátt en sonurinn við frjálsu konunni var fæddur samkvæmt fyrirheiti. Þetta hefur óeiginlega merkingu: Konurnar merkja tvo sáttmála: Annar er sá frá Sínaífjalli og elur börn til ánauðar, það er Hagar; en Hagar merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar hinni núverandi Jerúsalem því að hún er í ánauð ásamt börnum sínum. En Jerúsalem, sem er í hæðum, er frjáls og hún er móðir vor því að ritað er:
Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt!
Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið.
Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri
en hinnar sem manninn á.

En þið, bræður mínir og systur, eruð börn Guðs eins og Ísak af því að hann gaf fyrirheit um ykkur. En eins og sá sem fæddur var á náttúrulegan hátt ofsótti forðum þann sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. En hvað segir ritningin? „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.“ Þess vegna, bræður mínir og systur, erum við ekki ambáttar börn heldur börn frjálsu konunnar.