Þið elskuðu, fyrst Guð hefur elskað okkur svo mikið þá ber okkur einnig að elska hvert annað. Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Ef við elskum hvert annað þá er Guð í okkur og kærleikur hans er fullkomnaður í okkur. Guð hefur gefið okkur anda sinn og þannig vitum við að við erum í honum og hann í okkur. Við höfum séð og vitnum að faðirinn hefur sent soninn til að vera frelsari heimsins. Hver sem játar að Jesús sé sonur Guðs, í honum er Guð stöðugur og hann í Guði. Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.