En þú, Guðs maður, forðast þú þetta en stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.
Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.
Fyrir augliti Guðs, sem veitir öllu líf, og Krists Jesú, er gerði góðu játninguna frammi fyrir Pontíusi Pílatusi, býð ég þér: Gæt þess sem þér er falið lýtalaust og óaðfinnanlega allt til endurkomu Drottins vors Jesú Krists sem hinn blessaði og eini alvaldur mun á sínum tíma láta birtast, konungur konunganna og Drottinn drottnanna.
Hann einn er ódauðlegur og býr í því ljósi sem enginn fær nálgast, hann sem enginn maður leit né litið getur. Honum sé heiður og eilífur máttur. Amen.
Vara ríkismenn þessarar aldar við að hreykja sér og treysta fallvöltum auði, bjóð þeim heldur að treysta Guði sem lætur okkur allt ríkulega í té sem við þörfnumst. Bjóð þeim að gera gott, vera ríkir að góðum verkum, örlátir, fúsir að miðla öðrum, með því safna þeir handa sjálfum sér fjársjóði sem er góð undirstaða til hins ókomna og munu geta höndlað hið sanna líf.
Þú, Tímóteus, varðveit það sem þér er trúað fyrir og forðast hinar vanheilögu hégómaræður og mótsagnir þeirrar speki sem svo er rangnefnd og nokkrir hafa játast undir og orðið frávillingar frá trúnni.
Náð sé með yður.