Ef ég vitna sjálfur um mig er vitnisburður minn ekki gildur. Annar er sá sem vitnar um mig og ég veit að sá vitnisburður sem hann ber mér er sannur. Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni. Ekki þarf ég vitnisburð manns en ég segi þetta til þess að þér megið frelsast. Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans. Ég hef þann vitnisburð sem er meiri en Jóhannesar því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni að faðirinn hefur sent mig. Faðirinn sem sendi mig hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans. Og orð hans býr ekki í yður því að þér trúið ekki þeim sem hann sendi. Þér rannsakið ritningarnar því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær sem vitna um mig en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
Ég þigg ekki heiður af mönnum en ég þekki yður, ég veit að þér hafið ekki í yður kærleika til Guðs. Ég er kominn í nafni föður míns og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni tækjuð þér við honum. Hvernig getið þér trúað þegar þér þiggið heiður hver af öðrum en leitið ekki þess heiðurs sem er frá einum Guði? Ætlið eigi að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður er Móse og á hann vonið þér. Ef þér tryðuð Móse munduð þér líka trúa mér því um mig hefur hann ritað. Fyrst þér trúið ekki því sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?