Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins. En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem gætti dyra, og fór inn með Pétur. Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: „Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?“
Hann sagði: „Ekki er ég það.“
Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld því kalt var og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.
Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.
Jesús svaraði honum: „Ég hef talað í áheyrn allra. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum þar sem allir Gyðingar safnast saman en í leynum hef ég ekkert talað. Hví spyr þú mig? Spyrðu þá sem heyrt hafa hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt.“
Þegar Jesús sagði þetta rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: „Svarar þú æðsta prestinum svona?“
Jesús svaraði honum: „Hafi ég illa mælt þá sanna þú að svo hafi verið en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?“ Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.
En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: „Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?“
Hann neitaði því og sagði: „Ekki er ég það.“
Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess sem Pétur sneið af eyrað: „Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?“
Aftur neitaði Pétur og um leið gól hani.