Viska kvennanna reisir húsið
en fíflska þeirra rífur það niður með berum höndum.
Sá sem breytir rétt óttast Drottin
en sá sem fyrirlítur hann fer villur vegar.
Í munni heimskingjans býr vöndur gegn hroka hans
en varir hinna vitru varðveita þá.
Þar sem engin naut eru, er jatan tóm
en af krafti uxans fæst mikill ágóði.
Sannorður vottur lýgur ekki
en falsvottur fer með lygar.
Spottarinn leitar visku en finnur ekki
en hyggnum manni er hún auðfengin.
Haltu þig fjarri heimskum manni,
engin viskuorð hlýtur þú af honum.
Viska hins hyggna er að þekkja réttan veg
en fíflska heimskingjanna er blekking.
Heimskingja má sætta með meðalgöngu
en hreinskilnum nægir góðvild.
Hjartað eitt þekkir kvöl sína
og í gleði þess getur enginn annar blandað sér.
Hús ranglátra eyðast
en tjald hreinskilinna blómgast.
Margur vegurinn virðist greiðfær
en endar þó í helju.
Þótt hlegið sé kennir hjartað til,
gleði kann að enda í trega.
Rangsnúið hjarta hlýtur sín málagjöld,
svo og góður maður af verkum sínum.
Einfaldur maður trúir öllu
en hygginn maður kann fótum sínum forráð.
Vitur maður óttast hið illa og forðast það
en heimskinginn anar ugglaus áfram.
Uppstökkan mann henda glöp
en hinn meinfýsni verður hataður.
Einfeldningarnir erfa fíflsku
en vitrir menn krýnast þekkingu.
Hinir vondu verða að lúta hinum góðu
og hinir ranglátu að standa fyrir dyrum réttlátra.