En nú er Kristur upprisinn frá dauðum, frumgróði þeirra sem sofnuð eru. Eins og dauðinn kom með manni, þannig kemur upprisa dauðra með manni. Eins og allir deyja vegna sambands síns við Adam, svo munu allir lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist. En sérhver í sinni röð: Kristur er frumgróðinn, næst koma þeir sem játa hann þegar hann kemur. Síðan kemur endirinn er Kristur selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gert sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft. Því að Kristur á að ríkja uns hann hefur lagt alla fjendurna að fótum sér. Dauðinn er síðasti óvinurinn sem verður að engu gerður. „Allt hefur hann lagt undir fætur honum.“ Þegar segir að allt hafi verið lagt undir hann er augljóst að sá er undan skilinn sem lagði allt undir hann. Þegar allt hefur verið lagt undir hann mun og sonurinn sjálfur skipa sig undir föðurinn er lagði alla hluti undir hann svo að Guð verði allt í öllu.
Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá? Hví skyldi ég vera að leggja mig í lífshættu hverja stund? Svo sannarlega sem ég má miklast af ykkur í Kristi Jesú, Drottni vorum: Dauðinn vofir yfir mér hvern dag. Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum við! Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum. Vaknið til fulls og hættið að syndga. Sum ykkar þekkja ekki Guð. Það segi ég ykkur til blygðunar.