Á árinu 2022 gátu 100 milljónir einstaklinga lesið Biblíuna á sínu móðurmáli í fyrsta sinn. En á liðnu ári komu út 14 þýðingar á Biblíunni í heild á tungumálum sem ekki höfðu haft Biblíu áður. Þá komu jafnframt út fimm Nýja Testamenti á nýjum tungumálum. Alls voru einstakir hlutar Biblíunnar þýddir í fyrsta sinn á 57 tungumálum. Þá komu auk þess út nýjar eða endurskoðaðar þýðingar á 24 tungumálum til viðbótar.

Þessar þýðingar eiga sér stað um allan heim. Stór þýðingarverkefni voru unnin í Nígeríu, Brasilíu og Bangladesh. Í Eþíópíu fengu þau sem tala Arsi Omoro málið Biblíuna í heild á sínu móðurmáli og sama má segja um þau sem tala Taghulandang í Indónesíu. Hér á Norðurlöndunum fengu þau sem eiga julevsámegiella að móðurmáli í fyrsta sinn tækifæri til að lesa hluta Biblíunnar á sínu máli þegar Sálmarnir voru þýddir á liðnu ári. En julevsámegiella er eitt margra samískra tungumála sem eru móðurmál Sama í nyrstu byggðum Finnlands, Svíþjóðar og Noregs.

Framundan er mikið verk, bæði í fyrstu þýðingum Biblíunnar í heild og í endurskoðun og nýþýðingum. Sameinuðu Biblíufélögin settu sér markmið árið 2018 að ljúka 1200 nýjum Biblíuþýðingum fyrir árið 2038. Nú þegar hefur tekist að ljúka 133 þýðingum, 333 eru í vinnslu og enn á eftir að hefjast handa við 734 þýðingar svo markmiðið náist.