Hvað stoðar það, bræður mínir og systur, þótt einhver segist hafa trú en sýnir það eigi í verki? Mun trúin geta frelsað hann? Ef bróðir eða systir eru nakin og vantar daglegt viðurværi og eitthvert ykkar segði við þau: „Farið í friði, vermið ykkur og mettið!“ en þið gefið þeim ekki það sem líkaminn þarfnast, hvað stoðar það? Eins er líka trúin ein og sér dauð vanti hana verkin.
En nú segir einhver: „Einn hefur trú, annar verkin.“ Sýn mér þá trú þína án verkanna og ég skal sýna þér trúna af verkum mínum. Þú trúir að Guð sé einn. Þú gerir vel. En illu andarnir trúa því líka og skelfast. Fávísi maður! Vilt þú láta þér skiljast að trúin er ónýt án verkanna? Réttlættist ekki Abraham, faðir okkar, af verkum er hann lagði son sinn Ísak á altarið? Þú sérð að trúin var samtaka verkum hans og að trúin fullkomnaðist með verkunum. Og ritningin rættist sem segir: „Abraham trúði Guði og það var honum til réttlætis reiknað,“ og hann var kallaður vinur Guðs. Þið sjáið að maðurinn réttlætist af verkum en ekki af trúnni einni saman.
Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?
Eins og líkaminn er dauður án anda, eins er og trúin dauð án verka.