Þessu næst skipaði Davíð konungur: „Kallið til mín Sadók prest, Natan spámann og Benaja Jójadason.“ Þeir gengu fyrir konung og hann sagði við þá: „Takið með ykkur þjóna herra ykkar, látið Salómon, son minn, stíga á bak mínu eigin múldýri og farið með hann niður til Gíhonlindar. Þar skulu Sadók prestur og Natan spámaður smyrja hann til konungs yfir Ísrael. Þeytið síðan hafurshornið og hrópið: Salómon konungur lifi. Fylgið honum að því búnu upp eftir því að hann á að ganga inn og setjast í hásæti mitt. Hann skal verða konungur í minn stað. Ég hef ákveðið að hann skuli ríkja yfir Ísrael og Júda.“
Benaja Jójadason svaraði konungi og sagði: „Þetta skal verða. Drottinn, Guð konungsins, herra míns, gefi það. Drottinn sé með Salómon eins og hann hefur verið með konunginum, herra mínum. Drottinn efli hásæti hans enn meira en hásæti herra míns, Davíðs konungs.“
Sadók prestur, Natan spámaður og Benaja Jójadason héldu þá niður eftir í fylgd Kreta og Pleta. Þeir létu Salómon stíga á bak múldýri Davíðs konungs og fóru með hann til Gíhon. Sadók prestur hafði tekið olíuhornið úr tjaldbúðinni og smurði Salómon. Hafurshornið var þeytt og allur mannfjöldinn hrópaði: „Lifi Salómon konungur.“ Síðan fylgdu allir honum upp eftir. Þeir blésu í pípur og fögnuðu stórum svo að jörðin skalf af hrópum þeirra.