En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: „Kona, hví grætur þú?“
Hún svaraði: „Þeir hafa tekið brott Drottin minn og ég veit ekki hvar þeir hafa lagt hann.“ Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki að það var Jesús.
Jesús segir við hana: „Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú?“
Hún hélt að hann væri grasgarðsvörðurinn og sagði við hann: „Herra, ef þú hefur borið hann burt þá segðu mér hvar þú hefur lagt hann svo að ég geti sótt hann.“
Jesús segir við hana: „María!“
Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: „Rabbúní!“ (Rabbúní þýðir meistari.)
Jesús segir við hana: „Snertu mig ekki. Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður ykkar, til Guðs míns og Guðs ykkar.“
María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: „Ég hef séð Drottin.“ Og hún flutti þeim það sem hann hafði sagt henni.