Elí svaraði og sagði: „Farðu í friði. Guð Ísraels mun veita þér það sem þú baðst hann um.“ Hún sagði: „Megi ambátt þín finna náð fyrir augum þínum.“ Gekk hún síðan leiðar sinnar, byrjaði aftur að borða og var ekki lengur döpur í bragði.
Morguninn eftir fóru þau snemma á fætur, báðu til Drottins og sneru síðan aftur heim til Rama. Elkana kenndi Hönnu, konu sinnar, og Drottinn minntist hennar og varð hún þunguð. Í lok ársins fæddi hún son og nefndi hann Samúel, „af því að ég hef beðið Drottin um hann“.
Elkana fór nú ásamt allri fjölskyldu sinni upp til Síló til þess að færa Drottni hina árlegu sláturfórn og heitfórn. En Hanna fór ekki heldur sagði hún við mann sinn: „Ég verð hér þar til drengurinn hefur verið vaninn af brjósti. Þá fer ég með hann til að sýna hann fyrir augliti Drottins. Upp frá því skal hann ævinlega vera þar.“ „Gerðu það sem þér þykir rétt,“ svaraði Elkana, maður hennar. „Vertu um kyrrt heima þar til þú hefur vanið hann af brjósti. Megi Drottinn láta heit þitt rætast.“
Konan var síðan um kyrrt heima og hafði soninn á brjósti þar til hún vandi hann af. Þegar hún hafði vanið hann af brjósti fór hún með hann með sér upp eftir. Hún hafði einnig með sér þriggja vetra naut, eina efu mjöls og vínbelg. Hún fór með drenginn í hús Drottins í Síló en hann var enn mjög ungur.
Þau færðu nautið í sláturfórn og fóru síðan með drenginn til Elí og Hanna sagði: „Hlýddu á mál mitt, herra. Svo sannarlega sem þú lifir, herra, er ég konan sem stóð hér hjá þér og bað til Drottins. Ég bað um þennan dreng og Drottinn heyrði bæn mína og gaf mér það sem ég bað um. Nú gef ég hann Drottni. Drottinn hefur beðið um hann. Alla ævi sína skal hann heyra Drottni til.“ Síðan báðu þau til Drottins.