Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“
Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“
Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.