En um leið og ég gef ykkur þessi fyrirmæli get ég ekki hrósað ykkur fyrir samkomur ykkar sem eru fremur til ills en góðs. Í fyrsta lagi heyri ég að þið skiptist í hópa þegar söfnuðurinn kemur saman. Því trúi ég að nokkru leyti. Reyndar verða flokkar að vera meðal ykkar til þess að í ljós komi hverjum má treysta. En þegar þið komið saman verður það ekki til þess að neyta máltíðar Drottins, því hver um sig neytir síns matar fyrir fram og svo er einn hungraður og annar drekkur sig ölvaðan. Hafið þið þá ekki hús til að eta í og drekka? Viljið þið vanvirða söfnuð Guðs og auðmýkja þá sem ekkert eiga? Hvað á ég að segja við ykkur? Á ég að hæla ykkur fyrir þetta? Nei, ég hæli ykkur ekki.
Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“
Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis. Þess vegna eru svo margir sjúkir og lasburða á meðal ykkar og allmargir deyja. Ef við dæmdum um okkur sjálf yrðum við ekki dæmd. En þegar Drottinn dæmir okkur er hann að aga okkur til þess að við verðum ekki dæmd sek ásamt heiminum.
Systkin, þess vegna skuluð þið bíða hvert eftir öðru þegar þið komið saman til að matast. Ef nokkur er hungraður, þá eti hann heima til þess að samkomur ykkar verði ykkur ekki til dómsáfellis. Annað mun ég segja til um þegar ég kem.