Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“
Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.“
Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.