Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom er slátra skyldi páskalambinu sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: „Farið og búið til páskamáltíðar fyrir okkur.“
Þeir sögðu við hann: „Hvar vilt þú að við búum hana?“
En hann sagði við þá: „Þegar þið komið inn í borgina mætir ykkur maður sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer og segið við húsráðandann: Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum? Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað.“ Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.
Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“
Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“
Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.