Því næst lögðu þeir af stað frá Elím. Allur söfnuður Ísraelsmanna kom inn í Síneyðimörkina, sem er milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi annars mánaðarins eftir brottför þeirra úr Egyptalandi. Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni og sagði við þá: „Betra væri okkur að við hefðum fallið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi þegar við sátum við kjötkatlana, þegar við átum okkur södd af brauði. En þið hafið leitt okkur út í þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan söfnuð farast úr hungri.“
Þá sagði Drottinn við Móse: „Nú ætla ég að láta brauði rigna af himni handa ykkur. Fólkið á að ganga út og safna saman dag hvern því sem það þarf fyrir daginn. Þannig get ég reynt það og séð hvort það fylgir lögum mínum eða ekki. En þegar þeir mæla það sem þeir koma með heim á sjötta degi verður það helmingi meira en það sem þeir safna hina dagana.“
Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: „Í kvöld munuð þið skilja að það var Drottinn sem leiddi ykkur út úr Egyptalandi og á morgun fáið þið að sjá dýrð Drottins af því að hann hefur hlustað á mögl ykkar gegn Drottni. En hverjir erum við úr því að þið möglið gegn okkur?“ Og Móse hélt áfram: „Þegar Drottinn gefur ykkur kjöt að eta í kvöld og brauð að seðja ykkur á að morgni er það af því að Drottinn hefur hlustað á mögl ykkar gegn honum. Hverjir erum við? Þið möglið ekki gegn okkur heldur Drottni.“
Þá sagði Móse við Aron: „Segðu við allan söfnuð Ísraelsmanna: Gangið fram fyrir auglit Drottins því að hann hefur hlustað á mögl ykkar.“ Á meðan Aron talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna sneru þeir sér í áttina að eyðimörkinni. Þá birtist þeim skyndilega dýrð Drottins í skýi. Drottinn ávarpaði Móse og sagði: „Ég hef heyrt mögl Ísraelsmanna. Talaðu til þeirra og segðu: Ísraelsmenn, áður en dimmt er orðið munuð þið fá kjöt til matar og á morgun seðjist þið af brauði. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn, Guð ykkar.“