Þegar þeir komu til fólksins gekk maður til Jesú, féll á kné fyrir honum og sagði: „Drottinn, miskunna þú syni mínum. Hann er tunglsjúkur og illa haldinn. Oft fellur hann á eld og oft í vatn. Ég fór með hann til lærisveina þinna en þeir gátu ekki læknað hann.“
Jesús svaraði: „Þú vantrúa og rangsnúna kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann hingað til mín.“ Og Jesús hastaði á hann og illi andinn fór úr honum. Og sveinninn varð heill frá þeirri stundu.
Þá komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu hann einslega: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“
Jesús svaraði þeim: „Vegna þess að ykkur skortir trú. Sannlega segi ég ykkur: Ef þið hafið trú eins og mustarðskorn getið þið sagt við fjall þetta: Flyt þig héðan og þangað og það mun flytja sig. Ekkert verður ykkur um megn. [ En þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn og föstu.]“