Dag nokkurn bar svo til að synir Guðs komu og gengu fyrir Drottin og kom Satan einnig með þeim og gekk fyrir Drottin. Drottinn spurði Satan: „Hvaðan kemur þú?“ Satan svaraði Drottni og sagði: „Ég var á ferðalagi um jörðina.“ Þá spurði Drottinn Satan: „Veittir þú athygli Job, þjóni mínum? Enginn maður á jörðinni er jafnráðvandur og réttlátur og hann. Hann óttast Guð og forðast illt. Hann er staðfastur í ráðvendni sinni þó að þú hafir að tilefnislausu egnt mig gegn honum til að gera út af við hann.“ Satan svaraði Drottni og sagði: „Nær er skinnið en skyrtan. Menn láta allt sem þeir eiga fyrir líf sitt. En réttu út hönd þína og snertu hold hans og bein. Þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ Þá sagði Drottinn við Satan: „Hann er í þínum höndum en þú skalt þyrma lífi hans.“
Síðan fór Satan frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja. Hann tók sér þá leirbrot til að skafa sig með þar sem hann sat á öskuhaugnum. Þá sagði kona hans við hann: „Ertu enn staðfastur í ráðvendni þinni? Formæltu Guði og farðu að deyja.“ Hann svaraði henni: „Þú talar eins og fávís kona. Ættum við að þiggja það sem er gott frá Guði en ekki það sem er illt?“
Þrátt fyrir allt þetta syndgaði Job ekki með vörum sínum.