Allur söfnuður Ísraelsmanna lagði nú af stað frá Síneyðimörkinni og hélt áfram í áföngum eftir fyrirmælum Drottins. Þeir slógu upp búðum í Refídím. Af því að ekkert drykkjarvatn var þar að finna ásakaði fólkið Móse og sagði: „Gefðu okkur vatn að drekka.“ Móse sagði við það: „Hvers vegna ásakið þið mig? Hvers vegna reynið þið Drottin?“ Fólkið þyrsti í vatn og möglaði gegn Móse og sagði: „Hvers vegna leiddir þú okkur frá Egyptalandi? Var það til að láta okkur, börn okkar og fénað deyja úr þorsta?“ Þá hrópaði Móse á hjálp til Drottins og sagði: „Hvað get ég gert við þetta fólk? Það er rétt að því komið að grýta mig.“ Drottinn sagði við Móse: „Gakktu fram fyrir fólkið og taktu með þér nokkra af öldungum Ísraels. Taktu í hönd þér stafinn sem þú slóst með á fljótið og haltu af stað. Þar mun ég standa frammi fyrir þér, á klettinum við Hóreb. Þú skalt slá á klettinn og mun þá vatn spretta úr honum og fólkið fær að drekka.“ Þetta gerði Móse frammi fyrir augum öldunga Ísraels. Hann nefndi staðinn Massa og Meríba vegna þess að Ísraelsmenn höfðu komið með ásakanir og reynt Drottin með því að spyrja: „Er Drottinn mitt á meðal okkar eða ekki?“