Guð, þú hefur kennt mér frá æsku
og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.
Yfirgef mig eigi, Guð,
þó að ég verði gamall og grár fyrir hærum,
að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð
og mátt þinn öllum óbornum.
Máttur þinn og réttlæti, ó Guð, nær til himins.
Þú hefur unnið stórvirki,
Guð minn, hver er sem þú?
Þú, sem lést mig reyna miklar þrautir og þrengingar,
munt lífga mig að nýju
og hefja mig aftur úr undirdjúpum jarðar.
Veit mér uppreisn æru
og snú þér til mín og hugga mig.
Þá mun ég lofa trúfesti þína með hörpuleik, Guð minn,
og leika á gígju þér til lofs,
þú Hinn heilagi í Ísrael.
Varir mínar skulu fagna
þegar ég leik fyrir þér
og sál mín sem þú hefur endurleyst.
Daglangt skal tunga mín vitna um réttlæti þitt
því að þeir sem vildu mér illt
urðu til skammar og hlutu smán.