En umfram allt, bræður mínir og systur, sverjið ekki, hvorki við himininn né við jörðina né nokkurn annan eið. En já ykkar sé já, nei ykkar sé nei, svo að Guð dæmi ykkur ekki.
Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.
Elía var maður eins og við. Hann bað þess heitt að ekki skyldi rigna og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði. Hann bað aftur og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.
Bræður mínir og systur, ef einhver meðal ykkar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur, þá viti hann að hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða og bæta fyrir fjölda synda.