Þann 16. maí mun uppboðsfyrirtækið Sotheby‘s í New York halda uppboð á Biblíuhandritinu Codex S1 sem einnig gengur undir nafninu Codex Sassoon. Uppboðsfyrirtækið gerir ráð fyrir að handritið seljist á 30-50 milljónir Bandaríkjadala eða 4,4-7,2 milljarða íslenskra króna og verði þar með dýrasta fornrit sögunnar sem selt hefur verið á uppboði.

Codex Sassoon er elsta heillega handrit Hebresku biblíunnar í bókarformi og var mjög líklega útbúið í lok 9. aldar eða upphafi þeirrar 10. Það vantar reyndar 12 síður og nærri 100 síður eru skemmdar, en elsta óskemmda handrit Hebresku biblíunnar, Codex Leningrad, er um 100 árum yngra en Codex Sassoon, svo mikilvægi Codex Sassoon handritsins er ótvírætt. Annað handrit, Codex Aleppo, er frá svipuðum tíma og Codex Sassoon. En um 40% af Codex Aleppo glataðist í kjölfar árásar á samkomuhús gyðinga í borginni Aleppo í Sýrlandi árið 1947.

Codex Sassoon er eins og áður sagði frá lokum 9. aldar eða upphafi þeirrar 10. Eigendasaga þess er fjölbreytt þar til á 13. öld þegar það var afhent samkomuhúsi gyðinga í bænum Makisin í Sýrlandi. Þegar að samkomuhúsið eyðilagðist á 14. öld, fór handritið í geymslu þar til samkomuhúsið yrði endurreist. Samkomuhúsið var hins vegar aldrei endurreist og handritið hvarf.

600 árum síðar birtist handritið almenningi á ný þegar David Solomon Sassoon keypti það fyrir 350 bresk pund árið 1929. Hann lét binda það inn í vandað leðurband og lét setja innan á kápuna merkingu, þar sem hann er sagður eigandi handritsins, sem útskýrir nafnið Codex Sassoon. Sassoon fjölskyldan seldi handritið á uppboði í kringum 1978. Eftir það var handritið um tíma til sýnis á British Museum. Það fór aftur í sölu 1989 og seldist þá á rúmlega 2 milljónir breskra punda. Kaupandinn var fjárfestir frá Sýrlandi.

Nú er handritið aftur til sölu og ljóst að fjárfestingin hefur margfaldast í verði ef spá Sotheby’s’ gengur eftir.

Hægt er að kynna sér uppboðið: Codex Sassoon: The Earliest Most Complete Hebrew Bible | | Sotheby’s (sothebys.com)

Hebreska biblían (Tanakh) samanstendur af 24 ritum eða ritasöfnum. Það skiptist  í Mósebækurnar fimm, átta spámannleg rit og loks ellefu spekirit. Þegar rit Hebresku biblíunnar eru borin saman við Gamla testamenti kristinna manna, þá er röð ritanna önnur og í Gamla testamentinu hefur nokkrum ritum verið skipt upp í tvö rit. Þannig er Samúelsbók Hebresku biblíunnar skipt í  1. Samúelsbók og 2. Samúelsbók í Gamla testamentinu. Það sama á við um Konungabók og Króníkubók. Esra/Nehemía er eitt rit í Hebresku biblíunni en tvö í Gamla testamentinu. Þá eru 12 minni spámenn Gamla testamentisins sameinaðir í einu riti í Hebresku biblíunni. Með öðrum orðum, 24 rit Hebresku biblíunnar eru sömu textar og teljast vera ritin 39 í Gamla testamentinu, þó þau birtist í annarri röð.