Í Joppe var lærisveinn, kona að nafni Tabíþa, á grísku Dorkas. Hún var mjög góðgerðasöm og örlát við snauða. En á þeim dögum tók hún sótt og andaðist. Var hún lauguð og lögð í loftstofu. Nú er Lýdda í grennd við Joppe og höfðu lærisveinarnir heyrt að Pétur væri þar. Sendu þeir tvo menn til hans og báðu hann: „Kom án tafar til okkar.“ Pétur brá við og fór með þeim. Þegar þangað kom fóru þeir með hann upp í loftstofuna og allar ekkjurnar komu til hans grátandi og sýndu honum kyrtla og yfirhafnir sem Dorkas hafði gert meðan hún var hjá þeim. En Pétur lét alla fara út, féll á kné og baðst fyrir. Síðan sneri hann sér að líkinu og sagði: „Tabíþa, rís upp.“ En hún opnaði augun, sá Pétur og settist upp. Og hann rétti henni höndina og reisti hana á fætur, kallaði síðan á hina heilögu og ekkjurnar og leiddi hana fram lifandi. Þetta barst út um alla Joppe og margir tóku trú á Drottin. Var Pétur um kyrrt í Joppe allmarga daga hjá Símoni nokkrum sútara.