Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína og lærisveinar hans fylgdu honum. Þegar hvíldardagur var kominn tók hann að kenna í samkundunni. Fjöldinn sem á hlýddi undraðist stórum. Menn sögðu: „Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki sem honum er gefin og hvernig getur hann gert slík kraftaverk? Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá okkur?“ Og þeir hneyksluðust á honum.
Þá sagði Jesús: „Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændfólki sínu og heimamönnum.“ Og hann gat ekki gert þar neitt kraftaverk nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá. Og hann undraðist vantrú þeirra.
Jesús fór nú um þorpin þar í kring og kenndi. Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum. Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti. Þeir skyldu hafa skó á fótum en ekki tvo kyrtla. Og hann sagði við þá: „Hvar sem þið fáið inni, þar sé aðsetur ykkar uns þið leggið upp að nýju. En hvar sem ekki er tekið við ykkur né á ykkur hlýtt, þaðan skuluð þið fara og hrista dustið af fótum ykkar þeim til viðvörunar.“
Þeir lögðu af stað og prédikuðu að menn skyldu taka sinnaskiptum, ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.