Engli safnaðarins í Laódíkeu skaltu rita:
Þetta segir hann sem er amen, votturinn trúi og sanni, upphaf sköpunar Guðs. Ég þekki verkin þín, þú ert hvorki kaldur né heitur. Betur að þú værir annaðhvort kaldur eða heitur. En af því að þú ert hálfvolgur og hvorki heitur né kaldur mun ég skyrpa þér út af munni mínum. Þú segir: „Ég er ríkur og orðinn auðugur og þarfnast einskis.“ Þú veist ekki að þú ert vesalingur og aumingi, fátækur, blindur og nakinn. Ég ræð þér að þú kaupir af mér gull, skírt í eldi, til þess að þú verðir auðugur, og hvít klæði til þess að þú getir hulið skammarlega nekt þína. Kauptu líka smyrsl á augu þín til þess að þú getir séð. Ég tyfta og aga alla þá sem ég elska. Legg þú því allt kapp á að bæta ráð þitt. Ég stend við dyrnar og kný á. Ef einhver heyrir raust mína og lýkur upp dyrunum mun ég fara inn til hans og neyta kvöldverðar með honum og hann með mér. Þann er sigrar mun ég láta sitja hjá mér í hásæti mínu eins og ég sjálfur sigraði og settist hjá föður mínum í hásæti hans.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.