Engin björgun býðst þeim
sem er ofurseldur algjörum sorta.

Ekki skal myrkur vera í landinu sem fyrr var í nauðum statt. Fyrrum lét hann vansæmd koma yfir Sebúlonsland og Naftalíland en síðar meir mun hann varpa frægð yfir strandveginn, landið handan við Jórdan, Galíleu heiðingjanna.

Sú þjóð, sem í myrkri gengur,
sér mikið ljós.
Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna
skín ljós.
Þú eykur stórum fögnuðinn,
gerir gleðina mikla.
Menn gleðjast fyrir augliti þínu
eins og þegar uppskeru er fagnað,
eins og menn fagna þegar herfangi er skipt.
Því að ok þeirra,
klafann á herðum þeirra,
barefli þess sem kúgar þá
hefur þú brotið í sundur eins og á degi Midíans.
Öll harkmikil hermannastígvél
og allar blóðstokknar skikkjur
skulu brenndar
og verða eldsmatur.
Því að barn er oss fætt,
sonur er oss gefinn.
Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur:
Undraráðgjafi, Guðhetja,
Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.
Mikill skal höfðingjadómurinn verða
og friðurinn engan enda taka
á hásæti Davíðs
og í ríki hans.
Hann mun reisa það og efla með réttvísi og réttlæti,
héðan í frá og að eilífu.
Vandlæting Drottins allsherjar
mun þessu til vegar koma.