Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“
Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“
Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist. Þótt hann hefði gert svo mörg tákn í allra augsýn trúðu menn ekki á hann svo að rættist orð Jesaja spámanns er hann mælti:
Drottinn, hver trúði boðun vorri
og hverjum varð armur Drottins opinber?

Þess vegna gátu þeir ekki trúað enda segir Jesaja á öðrum stað:
Hann hefur blindað augu þeirra
og forhert hjarta þeirra
að þeir sjái ekki með augunum
né skilji með hjartanu og snúi sér
og ég lækni þá.

Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð Jesú og talaði um hann.
Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna svo að þeir yrðu ekki samkundurækir. Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.
En Jesús hrópaði: „Sá sem trúir á mig trúir ekki á mig heldur þann sem sendi mig og sá sem sér mig sér þann er sendi mig. Ég er ljós í heiminn komið svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri. Ef nokkur heyrir orð mín og fer ekki eftir þeim þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn heldur til að frelsa heiminn. Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi. Því að það sem ég tala kemur ekki frá sjálfum mér heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala. Og ég veit að það sem hann býður er eilíft líf. Ég tala það eitt sem faðir minn hefur falið mér.“