Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis,
lát mig aldrei verða til skammar.
Frelsa mig, bjarga mér eftir réttlæti þínu,
hneig eyra þitt að mér og hjálpa mér.
Ver mér verndarbjarg,
vígi mér til hjálpar
því að þú ert bjarg mitt og vígi.
Guð minn, bjarga mér úr hendi guðlausra,
úr greipum kúgara og harðstjóra.
Þú ert von mín, Drottinn,
þú, Drottinn, ert athvarf mitt frá æsku,
frá móðurlífi hef ég stuðst við þig,
frá móðurskauti hefur þú verndað mig,
um þig hljómar ætíð lofsöngur minn.
Ég er orðinn mörgum sem teikn
en þú ert mér öruggt hæli.
Munnur minn er fullur lofgjörðar um þig,
af lofsöng um dýrð þína allan daginn.