Sá sem fyrirlítur hollráð býr sér glötun
en sá sem hlítir leiðsögn hlýtur umbun.
Kennsla hins vitra er lífslind
og forðar frá snörum dauðans.
Góðir vitsmunir veita hylli
en vegur svikaranna leiðir í glötun.
Vitur maður fer að öllu með hyggindum
en flónið dreifir um sig heimsku.
Ótrúr sendiboði færir ógæfu
en trúr sendimaður lækningu.
Fátækt og smán hlýtur sá sem ekki skeytir um áminningar
en sá sem tekur umvöndun hlýtur sæmd.
Uppfyllt ósk er sálinni sæt
en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð.
Eigðu samneyti við vitra menn, þá verður þú vitur,
en illa fer þeim sem leggur lag sitt við heimskingja.
Óhamingjan eltir syndarana
en gæfan hlotnast hinum réttlátu.
Góður maður lætur eftir sig arf handa börnum og barnabörnum
en eigur syndarans koma í hlut hins réttláta.
Nýrækt fátæklinga gefur ærna fæðu
en óhóf sviptir marga efnum.
Sá sem sparar vöndinn hatar son sinn
en sá sem elskar hann agar hann snemma.
Hinn réttláti fær nægju sína
en kviður ranglátra er galtómur.