Og ég sá, og sjá: Hvítt ský og á skýinu einhvern sitja líkan mannssyni. Hann hafði gullkórónu á höfði og beitta sigð í hendi. Og annar engill kom út úr musterinu. Hann kallaði hárri röddu til þess sem á skýinu sat: „Beittu sigð þinni og skerðu upp því að kominn er uppskerutíminn, kornið er þroskað.“ Og sá sem á skýinu sat brá sigð sinni á jörðina og uppskeran var færð í hlöðu.
Annar engill gekk út úr musterinu, sem er á himni, og hann hafði líka beitta sigð.
Og enn annar engill gekk út frá altarinu og hafði vald yfir eldinum. Hann kallaði hárri röddu til þess sem hafði beittu sigðina: „Tak beittu sigðina þína og sker þrúgurnar af vínviði jarðarinnar því að vínberin á honum eru orðin þroskuð.“ Og engillinn brá sigð sinni á jörðina, skar af vínviði hennar og kastaði honum í vínþröngina miklu sem táknar reiði Guðs. Og vínþröngin var troðin fyrir utan borgina og gekk blóð út af henni svo að tók upp undir beisli hestanna, eitt þúsund og sex hundruð skeiðrúm þar frá.