Bregðið sigðinni,
vínberin eru fullþroskuð.
Komið og troðið.
Svo full er vínþróin
að lagarkerin flóa yfir.
Svo mikil er illska þeirra.
Mannþröng, mannsægur
í Dal dómsins.
Nálægur er dagur Drottins
í Dal dómsins.

Sól og tungl myrkvast
og stjörnurnar synja um birtu sína.
En Drottinn þrumar frá Síon
og hefur upp raust sína frá Jerúsalem
svo að himinn og jörð nötra.
En lýð sínum veitir Drottinn skjól
og Ísraelsmönnum er hann athvarf.
Og yður verður ljóst að ég, Drottinn, Guð yðar,
bý á Síon, hinu heilaga fjalli mínu.
Jerúsalem verður heilög,
aðkomumenn munu aldrei framar ryðjast þar í gegn.
Á þeim degi
drýpur vínlögur af fjöllunum,
hæðirnar fljóta í mjólk
og vatn mun streyma um alla farvegi í Júda.
Og lind mun streyma frá húsi Drottins
og fylla farveg Akasíudalsins.

Egyptaland verður að auðn
og Edóm að mannlausum öræfum
vegna ofbeldisins gegn Júdamönnum.
Í landi þeirra úthelltu þeir saklausu blóði.
En Júda verður byggð að eilífu
og Jerúsalem um aldir alda.
Saklaust mun ég telja það blóð
sem ég mat áður til blóðsakar.
Og Drottinn mun dveljast um kyrrt á Síon.