Hefurðu komið að forðabúri snævarins
og séð geymslur haglsins
sem ég geymi til þrengingatíma,
til orrustu- og ófriðardags?
Hvar er vegurinn þangað sem ljósinu er dreift
og austanvindurinn tvístrast um jörðina?
Hver gerði göng fyrir regnskúrina
og veg fyrir eldingarnar
svo að rignir yfir óbyggt land,
yfir eyðimörkina þar sem enginn býr,
og mettar auðn og eyðilönd
og lætur grængresi spretta?
Á regnið sér föður
eða hver hefur getið daggardropana
og hver fæddi hrímið sem kemur af himni?
Vatnið stirðnar sem steinn
og yfirborð djúpsins þéttist.
Hnýtir þú strengi Sjöstjörnunnar
eða leysir þú fjötra Óríons?
Lætur þú stjörnumerkin koma í ljós á réttum tíma,
leiðir fram ljónynjuna og hvolpa hennar?
Þekkir þú lög himinsins,
ákveður þú vald hans á jörðinni?
Hefur þú rödd þína upp til skýja
svo að vatnsflaumur hylji þig?
Sendirðu eldingar frá þér svo að þær þjóta af stað
og segja við þig: „Hér erum vér“?
Hver veitti íbisfuglinum speki,
hver gaf hananum skilning?
Hver telur skýin af þekkingu
og hver hellir úr vatnskerum himins
þegar moldin verður að kekkjum
og hnausarnir loða saman?