Maður, af konu fæddur,
lifir fáa ævidaga, fulla af eirðarleysi.
Hann vex eins og blóm og visnar,
hverfur sem hvikull skuggi.
Samt hefurðu á honum vakandi auga
og kallar hann fyrir dóm þinn.
Hver getur leitt hreint af óhreinu?
Ekki nokkur maður.
Hafi ævidagar hans verið ákvarðaðir
og tala mánaða hans ákveðin af þér,
hafirðu sett honum mörk sem hann kemst ekki yfir,
líttu þá af honum svo að hann fái hvíld
og geti glaðst yfir degi sínum eins og daglaunamaður.
Tréð á sér framtíð,
verði það höggvið vex það á ný
og teinungarnir halda áfram að vaxa.
Þótt rótin eldist í jörðinni
og stofninn deyi í moldinni
vex það áfram fyrir kraft vatnsins
og ber greinar eins og ungur kvistur.
En deyi maðurinn liggur hann máttvana,
gefi maðurinn upp andann, hvað verður þá um hann?
Vatn hverfur úr hafinu,
fljótið rénar og þornar upp,
maðurinn leggst til hvíldar og rís ekki upp aftur.
Hann vaknar ekki fyrr en himinninn ferst,
hann verður ekki vakinn af svefni sínum.
Æ, að þú vildir fela mig í undirheimum,
hylja mig uns reiði þinni slotar,
ákveða mér stund og minnast mín þá.
Þegar maðurinn deyr, lifnar hann þá aftur?
Þá héldi ég út alla daga herþjónustunnar
uns sá kæmi sem leysti mig af.
Þá hrópaðir þú og ég svaraði þér,
þú mundir þrá verk handa þinna.