3. kafli
Ekki er svo að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.
Þetta hugarfar skulum við því öll hafa sem fullkomin erum. Og ef þið hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera ykkur þetta. Við skulum fyrir alla muni ganga þá götu sem við höfum komist á.
Systkin, breytið öll eftir mér og festið sjónir ykkar á þeim sem breyta eftir þeirri fyrirmynd er við höfum gefið ykkur. Margir breyta – ég hef oft sagt ykkur það og nú segi ég það jafnvel grátandi – eins og óvinir kross Krists. Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum. En föðurland okkar er á himni og frá himni væntum við frelsarans, Drottins Jesú Krists. Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama okkar svo að hann fái sömu mynd og dýrðarlíkami hans því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

4. kafli
Þess vegna, mín elskuðu og þráðu systkin, gleði mín og kóróna, standið þá stöðug í Drottni.