Enn og aftur, bræður mínir og systur, verið glöð í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það sem ég hef skrifað en ykkur er það fyrir bestu.
Varist hundana, varist hina vondu verkamenn, varist hina sundurskornu. Umskurnina eigum við sem dýrkum Guð í anda og miklumst af Jesú Kristi en treystum engum ytri auðkennum, enda þótt ég fyrir mitt leyti hafi slík auðkenni sem ég mætti treysta. Ef einhver annar þykist geta treyst á ytri merki gæti ég það fremur. Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, í lögmálshlýðni farísei, svo kappsfullur að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.
En það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist og reynst vera í honum, ekki sakir eigin réttlætis, sem fæst af hlýðni við lögmálið, heldur sakir þess sem trúin á Krist gefur, réttlætið frá Guði með trúnni. – Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.