Fyrst þið því eruð uppvakin með Kristi, þá keppist eftir því sem er hið efra þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er. Því að þið eruð dáin og líf ykkar er fólgið með Kristi í Guði. Þegar Kristur, sem er líf ykkar, opinberast, þá munuð þið og ásamt honum opinberast í dýrð.
Deyðið því hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun. Af þessu kemur reiði Guðs yfir þá sem hlýða honum ekki. Meðal þeirra voruð einnig þið áður þegar þið lifðuð í þessum syndum. En nú skuluð þið segja skilið við allt þetta: reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð. Ljúgið ekki hvert að öðru því þið hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja sem Guð er að skapa að nýju í sinni mynd til þess að þið fáið gjörþekkt hann. Þar er hvorki grískur maður né Gyðingur, umskorinn né óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll né frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
Íklæðist því eins og Guðs útvalin, heilög og elskuð börn hjartagróinni meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi. Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera. En íklæðist yfir allt þetta elskunni sem bindur allt saman og fullkomnar allt.
Látið frið Krists ríkja í hjörtum ykkar því að Guð kallaði ykkur til að lifa saman í friði sem limi í einum líkama. Verið þakklát.
Látið orð Krists búa með ykkur í allri sinni auðlegð og speki. Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Hvað sem þið segið eða gerið, gerið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður með hjálp hans.