Þá svaraði Drottinn Job úr storminum og sagði:
Hver er sá sem hylur ráðsályktunina myrkri
með innihaldslausum orðavaðli?
Gyrtu lendar þínar eins og manni sæmir,
nú ætla ég að spyrja þig en þú skalt svara.
Hvar varstu þegar ég grundvallaði jörðina?
Segðu það ef þú veist það og skilur.
Hver ákvað umfang hennar, veist þú það,
eða hver þandi mælivað yfir henni?
Á hvað var sökklum hennar sökkt
eða hver lagði hornstein hennar
þegar morgunstjörnurnar sungu saman gleðisöng
og allir synir Guðs fögnuðu?
Hver byrgði hafið inni með hliðum
þegar það braust fram úr móðurlífi
og ég fékk því klæðnað úr skýjum
og reifaði það svartaþoku,
þegar ég ruddi því markaða braut,
setti slagbranda fyrir og hlið
og sagði: „Hingað kemstu og ekki lengra,
hér stöðvast hreyknar hrannir þínar.“
Hvenær hefur þú kallað á morguninn,
vísað aftureldingunni á sinn stað
svo að hún grípi í klæðafald jarðar
og óguðlegir hristist af henni?
Hún breytist eins og leir undir innsigli
og litast líkt og klæði.
Óguðlegir verða sviptir ljósi sínu
og upplyftur armur þeirra brotinn.
Hefurðu komið að uppsprettum hafsins,
gengið á botni frumdjúpsins?
Hafa hlið dauðans opinberast þér,
hefurðu litið hlið myrkursins?
Hefurðu horft yfir víðáttur jarðar?
Segðu frá þeim ef þú þekkir þær allar.
Hvar er leiðin til heimkynna ljóssins
og hvar er bústaður myrkursins
svo að þú getir komið því á sinn stað
og vísað því veginn heim?
Þetta veistu því að þá varstu fæddur
og ævidagar þínir eru margir.