Biblíufélagið hefur tekið við útgáfu Biblíunnar á ný af JPV/Forlaginu sem hefur annast útgáfu Biblíunnar frá árinu 2006. Fyrsta endurútgáfa Biblíufélagsins á 2007 þýðingu Biblíunnar kemur út um miðjan febrúar. Markmið nýju útgáfunnar er að útbúa Biblíu sem er vönduð að allri gerð en um leið á hagkvæmara verði en áður hefur þekkst. Við hjá Biblíufélaginu erum sannfærð um að það hafi tekist. Nýja Biblían er í svipaðri stærð og ný Sálmabók Þjóðkirkjunnar, og kemur eingöngu í svartri kápu með smáum fallegum krossi á forsíðu. Almennt verð verður 3.890 krónur + sendingarkostnaður. Frekari frétta af útgáfunni er að vænta á næstu vikum.

Þegar nær dregur sumri mun Biblíufélagið síðan gefa út nýjar Biblíur í stærra broti, m.a. með kápu úr endurunnu leðri, sem er sérstaklega hönnuð til notkunar í helgihaldi.

JPV/Forlagið mun selja áfram Biblíur í fjölmörgum útgáfum, m.a. sem kilju, í mjúkri kápu í þremur mismunandi litum og í stærri útgáfu með rauðri flauelskápu.