Vitur sonur hlýðir fyrirmælum föður síns
en hinn þvermóðskufulli sinnir engri umvöndun.
Góðs má njóta af ávexti munnsins
en svikarana þyrstir í ofbeldi.
Sá sem gætir munns síns varðveitir líf sitt
en glötun bíður hins lausmála.
Sál letingjans girnist og fær ekki
en sál hins eljusama mettast ríkulega.
Réttlátur maður hatast við lygi
en hinn rangláti fremur smán og svívirðu.
Réttlætið verndar hinn grandvara
en ranglætið verður syndaranum að falli.
Einn þykist ríkur en á þó ekkert,
annar læst fátækur þótt auðugur sé.
Auðæfi manns eru lífi hans lausnargjald
en enginn hótar hinum fátæka.
Ljós réttlátra logar skært
en á lampa ranglátra slokknar.
Af hroka kvikna deilur
en hjá ráðþægnum mönnum er viska.
Skjótfenginn auður hjaðnar
en þeim sem safnar smátt og smátt vex auður.
Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt
en uppfyllt ósk er lífstré.