Engill Guðs, sem fór fyrir hersveit Ísraels, færði sig aftur fyrir þá og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færði sig og kom sér fyrir að baki þeim svo að hann varð á milli hers Egypta og hers Ísraelsmanna. Skýið var dimmt öðrum megin en lýsti alla nóttina hinum megin. Herirnir nálguðust ekki hvor annan alla þessa nótt.
Þá rétti Móse hönd sína út yfir hafið. Drottinn bægði hafinu burt með hvössum austanvindi alla nóttina og þannig gerði hann hafið að þurrlendi.
Þá klofnaði hafið svo að Ísraelsmenn gátu gengið á þurru í gegnum það en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar. Egyptar eltu og fóru á eftir þeim út í mitt hafið, allir hestar faraós, hervagnar hans og riddarar. Á morgunvökunni leit Drottinn yfir her Egypta í eld- og skýstólpanum og olli ringulreið í her Egypta. Hann lét hervagna þeirra ganga af hjólunum svo að þeim sóttist ferðin erfiðlega. Þá sögðu Egyptar: „Við skulum flýja fyrir Ísraelsmönnum því að Drottinn berst fyrir þá gegn Egyptum.“
Drottinn sagði við Móse: „Réttu hönd þína út yfir hafið, þá kemur vatnið aftur og fellur yfir Egypta, hervagna þeirra og riddara.“ Móse rétti þá hönd sína út yfir hafið. Í dögun kom vatnið aftur og rann í sinn fyrri farveg en er Egyptar reyndu að flýja undan því hrakti Drottinn þá út í mitt hafið.
Þegar vatnið kom aftur luktist það yfir hervagna, riddara og allt herlið faraós sem farið hafði á eftir þeim út í hafið. Enginn þeirra komst af. En Ísraelsmenn höfðu gengið á þurru mitt í gegnum hafið en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar.
Þannig bjargaði Drottinn Ísrael úr greipum Egypta á þessum degi. Ísrael sá Egypta liggja dauða á ströndinni. Þegar Ísrael sá máttarverkið, sem Drottinn hafði unnið á Egyptum, óttaðist þjóðin Drottin og trúði á Drottin og Móse, þjón hans.