Það orð er satt. Sækist einhver eftir biskupsstarfi þá girnist hann göfugt hlutverk. Biskup á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, bindindissamur, hóglátur, háttprúður, gestrisinn, góður fræðari, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, heldur gæfur, ekki deilugjarn, ekki fégjarn. Hann á að vera maður sem veitir góða forstöðu heimili sínu og venur börn sín á hlýðni og alla prúðmennsku.
Hvernig má sá sem ekki hefur vit á að veita heimili sínu forstöðu veita söfnuði Guðs umsjón?
Hann á ekki að vera nýr í trúnni til þess að hann ofmetnist ekki og verði fyrir sama dómi og djöfullinn. Hann á líka að hafa góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan til þess að hann verði ekki fyrir álasi og lendi í tálsnöru djöfulsins.
Svo eiga og djáknar að vera heiðvirðir, hreinskilnir, ekki drykkfelldir eða ágjarnir. Þeir skulu varðveita leyndardóm trúarinnar með hreinni samvisku. Einnig þá skal fyrst reyna, síðan takist þeir þjónustuna á hendur ef þeir eru óaðfinnanlegir.
Ef konur eru djáknar skulu þær vera heiðvirðar, ekki rógberar, heldur bindindissamar, trúar í öllu.
Djáknar séu einkvæntir og hafi góða stjórn á börnum sínum og heimilum. Því að þeir sem hafa staðið sig vel sem djáknar ávinna sér góðan orðstír og mikla djörfung í trúnni á Krist Jesú.