Þeir sem sitja um líf mitt leggja snörur fyrir mig,
þeir sem vilja mér illt rægja mig
og sitja á svikráðum allan liðlangan daginn.
En ég er sem daufur, ég heyri það ekki,
sem dumbur er opnar ekki munninn,
ég er sem maður sem heyrir ekki
og engin andmæli hefur í munni.
En á þig, Drottinn, vona ég,
þú munt svara mér, Drottinn, Guð minn.
Ég segi: „Lát þá eigi hlakka yfir mér,
eigi hælast um þegar mér skriðnar fótur.“
En ég er að falli kominn
og þjáning mín er mér sífellt fyrir augum.
Ég játa misgjörð mína,
er sorgmæddur yfir synd minni.
Þeir sem án saka eru óvinir mínir eru margir,
fjölmargir þeir sem hata mig að ástæðulausu.
Þeir gjalda mér gott með illu,
fjandskapast við mig af því ég leita hins góða.
Yfirgef mig ekki, Drottinn,
Guð minn, ver ekki fjarri mér.
Skunda til liðs við mig,
Drottinn, þú hjálp mín.