Nú er því engin fyrirdæming búin þeim sem eru í Kristi Jesú. Því að lögmál þess anda sem lífið gefur í Kristi Jesú hefur frelsað mig frá lögmáli syndarinnar og dauðans. Það sem lögmálinu var ógerlegt, þar eð það var vanmegna gagnvart sjálfshyggju mannsins, það gerði Guð með því að senda sinn eigin son í líkingu syndugs manns gegn syndinni og dæma syndina í manninum. Þar með gat réttlætiskröfu lögmálsins orðið fullnægt hjá okkur sem andinn fær að leiða en ekki sjálfshyggjan. Þau sem stjórnast af eigin hag hafa hugann við það sem hann krefst. En þau sem stjórnast af anda Guðs hafa hugann við það sem hann vill. Sjálfshyggjan er dauði en hyggja andans líf og friður. Sjálfshyggjan er fjandsamleg Guði og lýtur ekki lögmáli Guðs, enda getur hún það ekki. Þau sem lúta eigin hag geta ekki þóknast Guði.
En þið eruð ekki á hennar valdi heldur andans sem í ykkur býr. En sá sem hefur ekki anda Krists er ekki hans. Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.